• No results found

Noregur: DUE – líkan til að bæta úrræði fyrir varnarlaus ungmenni

6. Börn með einstaka reynslu

6.2 Noregur: DUE – líkan til að bæta úrræði fyrir varnarlaus ungmenni

Eftir Joachim Bjerkvik, verkefnisstjóra DUE

6.2.1 DUE – Þar sem unga fólkið er

DUE-verkefnið er unnið í samstarfi borgaryfirvalda í Björgvin, hús-næðismálastjórnar og lýðheilsustöðvar. Æskulýðsráðgjöfin Utekontakten í Björgvin sér um framkvæmd þess. Verkefnið felur í sér samstarf barnaverndar og félagsþjónustu um að veita ungu fólki á aldrinum 16–25 ára, sem býr við erfiðar fjölskylduaðstæður, sveigjanlega og aðgengilega þjónustu í nærsamfélagi þeirra, og liðka fyrir verkaskiptingu þjónustusviða í borginni sem og milli ríkis og borgar.

Vinnulíkan

Þegar barnaverndarsvið eða félagsþjónustu hafa sent inn umsókn þar að lútandi, er komið á verkefni í kringum hvern ungling. Verkefninu stýrir um-sjónarmaður í nánu samstarfi við unglinginn sjálfan og aðstoðaraðila hans. Í því felst markvisst starf í samræmi við aðgerðaáætlun fyrir unglinginn, einstaklingsáætlun hans og ábyrgðarhóp.

Umsjónarmennirnir hafa tilhlýðilega menntun og reynslu af starfi með markhópnum. Þeir kortleggja, skipuleggja og samræma hjálparúrræðin, og leitast við að skapa gott samstarf við unglinginn. Þeir koma úr ýmsum þjónustugeirum, frá borginni, ríki og einkaaðilum og eru yfirleitt leigðir í 8 klst. á viku af vinnustað sínum. Þannig tekst að finna umsjónarmann, sem hentar hverjum unglingi og nýta reynslu af mörgum vinnustöðum og auka fyrir vikið hæfni á bak við úrræðið. Hafi unglingarnir sérþarfir, er metið hvort fjölga beri vikulegum vinnustundum umsjónarmannsins eða bæta við starfsmanni.

Aðferðir

Einstakar forsendur hvers unglings ráða tilhögun DUE-verkefnisins hverju sinni. Áhersla er lögð á að þekking, færni og viðhorf verði til að bæta og efla félagslega hæfni unglinganna. Mestu máli skiptir að bæta félagslega grunn-færni, tileinkun bjargráða og getu til að bregðast við. Í verkefninu eru valdar bestu aðferðir úr ýmsum áttum og skiptir fagleg hæfni og starfsreynsla um-sjónarmannsins sköpum í breytingaferlinu. Þannig verður til sveigjanleiki sem býður upp á einstaklingsmiðuð úrræði.

Af fúsum og frjálsum vilja

Unglingarnir ákveða sjálfir hvort þeir taka þátt í verkefninu og þannig reyn-ist báðum aðilum auðveldara að gera kröfur. Margir skjólstæðingar hafa reynslu af ýmsum stofnunum og úrræðum og eru því á báðum áttum um hvort þeir eigi að leggja á sig enn eitt verkefnið. Unglingur, sem tekur þátt í DUE-verkefninu, komst þannig að orði þegar við hittumst fyrst:

„Það er ekki mín hugmynd að vera hér í dag, það er alls ekki af frjálsum vilja! Auk þess er ég ógeðslega þreyttur á barnaverndinni, og vil sjá um mig sjálfur!“

Við gefum okkur góðan tíma til að kynna verkefnið og hlusta á óskir og væntingar unga fólksins. Við bendum þeim á að þetta sé frjálst val þeirra sem þau þurfi að íhuga vandlega. Sumir vilja hugsa sig um en flestir vilja byrja eins fljótt og hægt er.

Virk þátttaka

Þeir, sem ákveða að vera með, vita að þess er vænst að þeir taki virkan þátt og komi að ákvörðunum sem varða framtíð þeirra á ýmsan hátt. Ungmennunum finnst þau taka þátt í að sníða eigin úrræði og eiga eitthvað í verkefninu, að tekið sé eftir þeim og þau tekin alvarlega. Meðákvörðunarréttur í raun vekur ábyrgðartilfinningu þeirra og er því mikilvægt skref í áttina að ráða sér sjálfur.

„Á stofnuninni var séð um allt fyrir mig. Nú er minna um það því ég kæri mig ekki um það. Nú er ég sjálfur orðinn yfirmaður, skilurðu – já, ásamt Endre (þ.e. um-sjónarmanninum). Nú tek ég ábyrgðina og það er fínt – ég ræð alveg við það!“

Réttur maður á réttum stað

Þegar velja á umsjónarmann er byrjað á því að ræða við unglinginn sjálfan og heyra hvort hann hafi sérstakar óskir, sem við teljum faglega verjandi. Síðan hefur DUE samband við viðkomandi og spyr hvort hann hafi áhuga á að taka að sér verkið. Þar sem unglingurinn tekur þátt í að velja umsjónarmanninn má búast við góðu samstarfi þeirra á milli. Þetta teljum við hjá DUE vera lykil-atriðið í framþróun hvers verkefnis. Þegar unglingur einn var spurður hvern hann vildi fá sem umsjónarmann svaraði hann:

„Það er einn sem var aðaltengiliður minn (á barnaverndarstofnuninni, ritstj.). Hann vissi hvað var í gangi og það var hægt að treysta honum – en ég efast um að hann nenni að hafa meiri afskipti af mér. Það má segja að ég hafi brennt ýmsar brýr að baki mér. (Hugsar sig um) Eruð þið til í að spyrja hann?“

Samstarfsteymi

Gott samband þar sem ríkir gagnkvæmt traust og virðing, er forsenda þess að mynda megi uppbyggilegt samstarfsteymi unglings og umsjónarmanns. Áhugi, sveigjanleiki, aðgengi og hæfileikinn til að hlusta og eiga gefandi samræður við unglinginn skipta þar miklu máli. Einhugur og sameiginlegur skilningur á markmiðum verkefnisins þarf að vera fyrir hendi ef nýta á gott samband sem best. Þá er mikilvægt að unglingurinn, umsjónarmaður og aðrir, sem kunna að koma að verkefninu geri sér grein fyrir hlutverki og verkefni hvers og eins og virði það. Markmið og verkaskipting í DUE-verkefnunum verða að vera skýr og raunsæ. Þau eru ákveðin í samráði við unglinginn áður en þau eru felld inn í aðgerðaáætlun og einstaklingsáætlun hans. Eigi nauðsynlegt traust að myndast er afar brýnt að allir sinni sínu verki og hrindi áætluninni í framkvæmd innan settra tímamarka.

„Ég man ekki til þess að það hafi áður gerst svona mikið í lífi mínu. Þau standa við það sem þau lofa, og það sem við ákveðum saman gerist – það er rosalega mikil-vægt.“

Áætlunin á að vera raunverulegt vinnuverkfæri, sem er stöðugt endurmetið og aðlagað aðstæðum í samráði við unglinginn. Þannig finnst honum hann eiga hlutdeild í henni og reynslan hefur sýnt að þá leggur hann sig enn frekar fram við að ná settum markmiðum.

Gott aðgengi

Umsjónarmaður skipuleggur sjálfur sinn vinnutíma í samræmi við þarfir unglingsins og getur hann því verið breytilegur. Mest er þörfin fyrir framlag hans í upphafi verkefnisins og þegar kaflaskipti eru í því. Umsjónarmaður er á bakvakt og því er hægt að ná honum í farsíma á öllum tímum sólarhrings. Þá er haft samstarf við Bráðaþjónustu barna, sem er kunnugt um hvaða unglingar taka þátt í verkefninu. Unglingarnir geta alltaf leitað þangað ef ekki næst í umsjónarmanninn. Umsjónarmenn geta leitað ráða og leiðbeininga hjá stjórn verkefnisins á vinnutíma og utan hans. Sveigjanlegur vinnutími og bakvaktir bæta aðgengið að umsjónarmönnum.

Misjafnt er hve mikið reynir á bakvaktirnar. Sumir hringja eða senda sms til umsjónarmannsins oft á dag, einnig um kvöld og nætur ef þörf krefur, en aðrir láta minna á það reyna. Unglingunum finnst yfirleitt skipta miklu máli að geta leitað til einhvers, sem þekkir þá og aðstæður þeirra, hvenær sólarhringsins sem er. Ein stelpan komst þannig á orði á fyrsta fundi sínum með samstarfsteyminu:

„Ég get hringt hvenær sem ég vil, og hún nennir alveg að hlusta á mig þegar ég er leið.“

Margir finna öryggi í því að geta náð í umsjónarmanninn þegar þeir vilja og því verður þörfin fyrir samband minni en ella.

Flutt að heiman

Fyrst ber að nefna að það er mjög hvetjandi fyrir ungmenni að geta flutt að heiman og verða sjálfstæðir einstaklingar. Margir eiga ekki lengur kost á að búa í foreldrahúsum. Mikill hörgull er á leiguhúsnæði í borginni og því þurfa umsjónarmaður og unglingurinn iðulega að verja miklum tíma og kröftum í leit að hentugu húsnæði á opnum leigumarkaði. Þannig finnst unglingnum hann axla ábyrgð á eigin húsnæðismálum og leggur sig meira fram við að halda því húsnæði sem hann fær á endanum. Þegar unglingarnir fá sjálfir að velja húsnæði og staðsetningu þess hefur það útslitaþýðingu um hvernig þeim líður á nýja heimilinu. Eins kemur það sér vel fyrir alla fjöl-skylduna því oft á tíðum er andrúmsloftið orðið spennt í foreldrahúsum.

Árvekni en ekki eftirlit

Flestir unglingar hafa þörf fyrir að fullorðnir séu vakandi yfir velferð þeirra án þess þó að þeir séu með nefið ofan í öllum koppum. Mikilvægt er að um-sjónarmaður viti nokkurn veginn hvar unglingurinn er, hvað hann hefur fyrir stafni og – ekki síst – með hverjum. Erfitt er að komast að því með eiginlegu eftirliti enda vinnur slíkt oft gegn markmiðum verkefnisins þar sem tor-tryggni og slæm samskipti skapa fjarlægð milli umsjónarmanns og unglings. Við vitum það eitt um frístundir unglings sem hann kýs sjálfur að segja frá, en ekki með því að hnýsast of mikið í hans málum. Enn sem fyrr er gott samband þar sem gagnkvæmt traust ríkir mikilvægt. Með því að hrósa unglingnum, hlusta á hann og sýna honum einlægan áhuga aukast líkur á því að umsjónarmaðurinn öðlist góða innsýn í líf unglingsins.

„Hún getur verið svolítið smámunasöm, spurt hvernig ég hafi það í dag, hverja ég umgangist og svoleiðis. En það er svo sem allt í lagi.“

Árangur

Með DUE-úrræðunum hafa yfirvöld í Björgvin sýnt í verki skilning á því að hver unglingur er einstakur og með sínar sérstöku þarfir. Unga fólkið sem tekur þátt í DUE–verkefninu býr yfir ólíkri reynslu, vandamál þeirra og úrlausnarefni eru af ýmsum toga. Verkefni unglinganna og markmið þeirra eru því einstaklingsmiðuð. Framvinda þeirra er ólík, sumir þurfa meiri tíma en aðrir en búið er þannig um hnútana að öllum gefist kostur á að þroskast. Þannig eykst geta þeirra og áhugi á að vaxa enn frekar, einnig eftir að verk-efninu lýkur. Hin mikla eftirspurn, sem verið hefur eftir þessu úrræði hjá barnavernd og félagsþjónustu, segir sitthvað um hversu þörfin er mikil.

6.3 Danmörk: Barnaráð og meðákvörðunarréttur í skóla