• No results found

Þegar þjóðkirkjan klofnaði ekk

Jón Helgason prófessor var skipaður af stjórnvöldum sem arftaki Þórhalls biskups árið 1917 og í fyrstu fylgdi hann sömu stefnu og hann. Hann amaðist

156 Félagsfræði Pétur Pétursson

ekki við nýju stefnunum sem fengið höfðu fylgi meðal almennings og sérstaklega meðal menntamanna þ.e.a.s. spíritisma og guðspeki. En eftir fyrra stríð og eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki varð nokkur breyting á kirkjustefnu Jóns. Þjóðkirkjufyrirkomulagið sætti nú ekki sömu gagnrýni stjórnmálamanna og menntamanna sem áður höfðu viljað aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðkirkju- stefna Þórhalls Bjarnarsonar hafði fundið hljómgrunn í ungmennafélags- hreyfingunni og þeim stjórnmálaflokki sem upp úr henni spratt, þ.e. Framsóknarflokknum, sem tók það inn í stefnuskrá sína að styðja frjálslynda, þjóðlega og umburðarlynda þjóðkirkju. Fáum fannst fýsilegur kostur að kljúfa þjóðkirkuna í söfnuði sem stæðu í stöðugum guðfræðideilum sín á milli eins og reyndin var með kirkjufélag Íslendinga í Vesturheimi. Flestum fannst eðlilegt að fólk með ólíkar trúarskoðanir ætti samleið í þjóðkirkju og að á milli hennar og hins nýja þjóðríkis ríkti gagnkvæmur stuðningur.

Jóni biskupi Helgasyni fannst við þessar aðstæður sjálfsagt að íslenska kirkjan sem sjálfstæð þjóðkirkja gæti nú tekið upp náið samstarf við dönsku systurkirkjuna og starfað með henni í skandinaviskum og fjölþjóðlegum samtökum kirkna sem urðu til eftir stríðið. Hann taldi litlar horfur á því að íslenska þjóðkirkjan gæti sent fulltrúa á þá fundi og í þær stjórnir sem um væri að ræða og taldi þjóðráð að danska kirkjan gæti komið sjónarmiðum íslensku kirkjunnar á framfæri. Þetta fannst mörgum þjóðlegum og frjálslyndum prestum varhugavert og þeir flykktu sér um Harald Níelsson sem enn var á varðbergi gagnvart dönskum trúaráhrifum og leit jafnan til engilsaxneska heimsins eftir fyrirmyndum. Árið 1922 urðu algjör vinslit milli Jóns og Haralds út af spíritismanum.

Það var séra Kjartan Helgason (1865-1931) prestur í Hruna sem var krafturinn í þeirri sókn gegn kirkjustefnu Jóns Helgasonar sem gerð var eftir 1922. Hann átti frumkvæðið að því að frjálslyndir og þjóðlegir prestar fylktu liði á prestastefnu undir forystu Haralds Níelssonar. Hann var bróðir þeirra séra Magnúsar Helgasonar (1857-1940) skólastjóra Kennaraskólans, vinar og samherja Þórhalls Bjarnarsonar, og Guðmundar Helgasonar (1853-1922) prests í Reykholti, föður Ásmundar Guðmundssonar (1888-1969) síðar biskups. Guðmundur var mikill áhugamaður um landbúnaðarmál eins og Þórhallur Bjarnason, sem var fyrsti forseti Búnaðarfélags Íslands, og tók Guðmundur við því embætti eftir að Þórhallur varð biskup en þeir voru nánir vinir og samherjar. Þessi vina- og fjölskyldutengsl endurspegla þá pólitísku þræði sem voru milli ungmennafélagshreyfingarinnar í Reykavík, Kennaraskólans, hinnar nýju þjóðkirkju sem varð til árið 1909 og Framsóknarflokksins sem stofnaður var sjö árum seinna, þ.e. 1916, sama ár og Þórhallur Bjarnarson lést.

„Frelsi landanna“ 157

Eftir að Jón biskup neitaði frjálslyndum guðfræðikandidat um vígslu á þeim forsendum að hann væri að fara til þjónustu í unitarasöfnuði í Ameríku urðu átakalínurnar enn skýrari á Íslandi og innan hins frjálslynda arms kom árið 1927 fram hópur ungra guðfræðinga – Straumamenn – sem gagnrýndu biskup harðlega um leið og þeir skipuðu sér um Harald Níelsson. Haraldur var gæddur persónutöfrum og foringjahæfileikum og áhrif hans voru mikil í kirkjunni og hann naut vaxandi virðingar og aðdáunar meðal landsmanna.

Þjóðkirkjan, þjóðríkið og guðsríkið

Eftirmaður Jóns Helgasonar á biskupsstóli var kosinn af prestum landsins árið 1938 og fyrir valinu varð 48 ára gamall prófastur á Vestfjörðum Sigurgeir Sigurðsson (1890-1953) sem aðhylltist frjálslyndu guðfræðistefnuna. Hann var nemandi og mikill aðdáandi Haralds Níelssonar. Valið stóð milli hans og séra Bjarna Jónssonar vígslubiskups og dómkirkjuprests sem átti að baki nær þriggja áratuga farsælt starf í höfuðborginni. En hann var af gamla skólanum í guðfræðinni og það vann gegn honum sem leiðtoga íslensku þjóðkirkjunnar á þessum tíma.

Nýi biskupinn innleiddi þann sið að hafa íslenska fánann í kór kirknanna og hann bauð prestum sínum að enda guðsþjónusturnar á sálminum Faðir

andanna, frelsi landanna eftir Matthías Jochumsson, sem varð eins konar

huggunarsálmur í kirkjunni á stríðsárunum. Sigurgeir biskup fjallaði um preststarfið og þjóðfélagslegt hlutverk kirkjunnar í hirðisbréfi sínu sem út kom 1940:

Vér höfum, elskulegu bræður, tekizt á hendur hið ábyrgðarmesta og

vandsamasta, og jafnframt helgasta hlutverk með þjóð vorri. Vér eigum að ganga inn í helgidóma þjóðarinnar og kenna henni hin eilífu sannindi, veginn til guðs. Vér eigum að vera leiðtogar hennar í öllu því, sem fyrir kemur á vegferð lífsins. Presturinn á að lifa með þjóðinni í gleði og sorg, standa við hlið einstaklingsins á áhrifastundum í lífinu – sem vinur og bróðir – og sterkur, göfugur ráðgjafi. (Sigurgeir Sigurðsson, 1940, bls. 39)

Þann 17. júní 1944 lýsti Alþingi Íslendinga samankomið á Þingvöllum yfir fullu sjálfstæði lýðveldisins Íslands. Við hátíðahöldin sem haldin voru af því tilefni hélt nýi biskupinn ræðu þar sem hann fjallaði um hið nýfengna þjóðfrelsi og þá ábyrgð sem í því fælist.

158 Félagsfræði Pétur Pétursson

Lýðveldishugsjóninni er ekki náð fyrr en þjóðin er frjáls hið innra jafnt sem hið ytra. Fyrr en hún er göfug og andlega sterk þjóð. Fyrr en hún hefur skrýðzt skrúða þess frelsis, sem skapar henni farsæld og innri frið. Vér vitum og skynjum, að leiðin til hins fullkomna, sanna frelsis er erfið og löng, framtíðin er ávallt hjúpuð móðu og mistri óvissunnar. En í gegn um þá þoku sjáum vér ljós, ljós kristindómsins – ljós Guðs. Hjá honum er uppspretta lífsins. Uppspretta alls þess, sem er fegurst og bezt í þjóðlífi voru. Þess vegna á Guð um fram allt að vera leiðtogi þjóðarinnar um alla tíð.

Hið sanna frelsi öðlast þjóðin aðeins á Guðs vegum…

Vér fögnum því öll að fá að lifa þessi augnablik. Barnið, æskumaðurinn, sem hér eru, munu á efri árum blessa þennan dag. Guð hefir falið oss mikið hlutverk að taka í dag á móti stærstu og dýrmætustu gjöfinni, sem unnt er að gefa þjóðunum. Minnstu þess, þegar allar kirkjuklukkur landsins hringja frelsið inn í dag, að þú varst kallaður til þessa veglega hlutverks. Mundu eftir ábyrgðinni, sem því er samfara. (Sigurgeir Sigurðsson, 1945, bls. 158-159)

Í þessari ræðu biskups Íslands á Þingvöllum 17. júní 1944 birtist aðgreining frjálslyndu guðfræðinnar á kirkjunni og guðsríki ljóslega. Frjáls og fullvalda þjóð er birtingarform guðsríkisins, náskylt fyrri hugmyndum manna eins og Matthíasar Jochumssonar, Þórhalls Bjarnarsonar og Haralds Níels- sonar um forsjón guðs og frelsi þjóðarinnar. Frjálsynd, umburðarlynd og þjóðleg kirkja hafði lagt fram sinn skerf í sjálfstæðisbaráttunni og þjóðkirkju- fyrirkomulagið þess vegna öðlast pólitískan trúverðugleika sem nægði því það sem eftir lifði af 20. öldinn.

Talsmenn lútherska rétttrúnaðarins voru í algjörri varnarstöðu gagnvart frjálslyndu guðfræðinni fram á fjórða áratuginn enda virtist hún ekki eiga framtíðina fyrir sér. En lútherskum rétttrúnaði óx ásmeginn eftir miðjan fjórða áratuginn enda var gullöld frjálslyndu guðfræðinnar þá liðin undir lok, ekki síst í upprunalandi hennar Þýskalandi. Leiðandi guðfræðingar á hinu stríðshrjáða meginlandi voru í óða önn að endurskoða bjartsýna aldamótatrú trú á hið góða í manninum og möguleika hans til að skapa fyrirmyndar- samfélag á forsendum framfara í vísindum. Áherslubreytingar höfðu einnig orðið í biblíuvísindum og voru fræðimenn ekki lengur eins trúaðir á það að hægt væri með gagnrýnum sögurannsóknum að finna hinn eina sanna sögulega Jesú Krist. Játningarit kirkjunnar voru aftur hafin til vegs og virðingar og það kom í ljós að samstarf kirkna í ólíkum löndum og einnig samstarf og samtal ólíkra kirkjudeilda byggðist á því að þær gerðu sér grein fyrir játningagrundvelli sínum og skoðuðu hann í ljósi sögulegra og pólitískra aðstæðna á hverjum tíma.

Frjálslynda guðfræðin hafði hins vegar enn yfirburðastöðu á Íslandi fram á sjötta áratuginn enda voru átakalínurnar í íslenskri guðfræðiumræðu

„Frelsi landanna“ 159

svipaðar og í upphafi aldarinnar. Heimsstríðin tvö höfðu fært þjóðina nær lokatakmarki sjálfstæðisbaráttunnar og efnahagslega var ekki unnt að greina að stríðin hefðu skaðað þjóðina í frelsisbaráttu sinni.

Niðurstöður

Frjálslynda guðfræðin var hugmyndagrunnur hinnar nýju þjóðkirkju Íslendinga sem varð til í biskupstíð Þórhalls Bjarnarsonar. Frjálslynda guðfræðin hamlaði frekari afheglun meðal íslenskra menntamanna í upphafi 20.aldar – afhelgun sem helst má rekja til áhrifa frá danska rithöfundinum og bókmenntagagnrýnandanum Georgi Brandesi. Þessi nýja guðfræði kom á nýju samtali guðfræðinga og menntamanna og aflaði guðfræðinni viður- kenningar sem akademískrar fræðigreinar sem viðurkenndi nútímalega hugsun, samviskufrelsi einstaklingsins og fræðimennsku byggða á sagnfræði og reynsluvísindum. Heimsmynd og hugsunarháttur frjálslyndu guðfræðinnar féll auk þess vel að hugmyndum leiðandi manna um nauðsyn þess að íslensk þjóð losaði sig við það helsi sem aldagömul efnhagsleg og stjórnmálaleg tengsl við Danmörku voru að þeirra mati og leggði út á djúpið í fullu trausti á mátt sinn og megin. Hugsjónir leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar sem sáu gullöld Íslendinga í hillingum og litu til sögunnar sem frelsunarsögu er í fyllingu tímans mundi raungera réttmætar þjóðfrelsiskröfur féllu vel að söguhyggju frjálslyndu guðfræðinnar eins og hún birtist í guðfræði Albrects Ritschl. Leiðtogar sjálfstæðisbaráttunnar, ekki síst þeir sem mótaðir voru af rómantískri þjóðernishyggju, gerðu ráð fyrir guðlegri forsjá sem var hugmyndafræðilega náskyld boðun frjálslyndu guðfræðinganna um ríki guðs.

Heimildir

Hägglund, B. (1971). Teologins historia. En dogmhistorisk översikt. Lund: Glerups förlag.

Lýðveldishátíðin 1944 (1945). Þjóðhátíðarnefnd samdi að tilhlutan alþingis og

ríkisstjórnarinnar. Reykjavík: Leiftur.

Livingston, J. C. (1971). Modern Christian Thought. From the Enlightenment to

Vatican II. New York: Collier-Macmillan Limited.

Prenter, R. (1952). „Liberal teologi.“ Nordisk teologisk uppslagsbok. Lund. Glerups förlag.

Pétur Pétursson (1990). Church and Social Change; A Study of the Secuarization

160 Félagsfræði Pétur Pétursson

Pétur Pétursson (2000). Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni. Í Þórunn Valdimarsdóttir og Pétur Pétursson (Ritstj.), Kristni á Íslandi IV (bls. 199- 421). Reykjavík: Alþingi.

Radler, A. (1988). Kristendomens idéhistoria. Från medeltiden till vår tid. Lund: Studentlitteratur.

Sigurgeir Sigurðsson (1940). Hirðisbréf til presta og prófasta á Íslandi. Reykjavík: Gutenberg.

Skydsgaard, K. S. (1952). „Guds rike“. Nordisk teologisk uppslagsbok. Lund: Glerups förlag.

Valdimar J. Eylands (1977). Íslenzk kristni í Vesturheimi. Reykjavík. Íslenska þjóðkirkjan.

Þórhallur Bjarnarson (1909). „Ávarp biskups til presta.“ Nýtt kirkjublað, 2, 17-20.

Skipulagt íþróttastarf meðal ungs fólks: