• No results found

Í rannsókninni kom fram að sameiningin hefur leitt til þess að hlutverk safnsins virðist óljósara vegna þess hversu margþætt það er. Heiti byggingar- innar Þjóðarbókhlaða og heiti safnsins Landsbókasafn gefa til kynna að safnið sé „þjóðarinnar“ eða „landsins“. Þó að það sé rétt að vissu marki er safnið fyrst og fremst ætlað þeim hluta þjóðarinnar sem stundar rannsóknir eða nám á háskólastigi.

Háskólar í landinu eru nú átta og þó að þeir hafi sín bókasöfn eru þau öll miklu minni en Landsbókasafnið. Nemendur úr öðrum skólum sækja því Þjóðarbókhlöðuna talsvert heim til að fá lánað efni og nýta sér aðra þjónustu sem þar er í boði. Nemar Háskólans hafa lent í samkeppni við þá um bækur og lessæti, einkum á próftíma. Það hefur valdið óánægju þegar nemar Háskólans hafa þurft að hverfa frá án þess að fá sæti. En einnig vill bregða við að nemendur annarra skóla séu ósáttir við forréttindi nemenda Háskóla Íslands og telja sig eiga jafnan rétt á að nýta ritakostinn og lesrýmið þar sem safnið sé landsbókasafn.

Kennararnir tíu voru spurðir álits á því hvernig sameining safnanna tveggja hefði heppnast og hvaða afleiðingar hún hefði haft fyrir Háskóla Íslands. Skoðanir á áhrifum sameiningarinnar voru skiptar en segja má að komið hafi fram greinilegur munur á viðhorfi til sameiningarinnar eftir því hvaða fræðasviði eða deild kennararnir tilheyrðu. Hugvísindin og raun- vísindin voru á öndverðum meiði eins og við mátti búast. Bókmenntafræði, málfræði og sagnfræði byggja öll mikið á íslenskum ritakosti og var því mikill fengur fyrir kennara hugvísindadeildar að fá gögn gamla Landsbókasafnsins nær háskólasvæðinu enda voru báðir kennarar hugvísindadeildar ánægðir með sameininguna. Kennarar hugvísindadeildar töldu sig heldur ekki lenda í

Tvíhöfða risi 31

samkeppni við aðra háskóla um bækurnar því hugvísindi væru ekki kennd annars staðar en í Háskóla Íslands.

Raunvísindi ná yfir vítt svið. Kennsla og rannsóknir í mörgum greinum raunvísinda, svo sem efnafræði og eðlisfræði, byggja á öðruvísi heimilda- notkun en hugvísindin. Þessar greinar eru ekki eins háðar bókasöfnum, þar sem rannsóknir þeirra fara að miklu leyti fram á tilraunastofum, og heimildir finnast í æ ríkara mæli í rafrænu formi. Ritakostur sá sem var á Lands- bókasafninu nýtist þeim því lítið í samanburði við hugvísindin, enda var hvorugur kennarinn hrifinn af sameiningunni. Öðru máli gegnir þó um greinar eins og stærðfræði, líffræði og jarðfræði þar sem bækur teljast enn mjög mikilvægar heimildir. Báðir kennararnir í raunvísindadeild töldu að sameiningin hefði haft neikvæð áhrif fyrir Háskólann þar sem meiri áhersla hefði verið lögð á þjóðbókasafnshlutverkið í nýja safninu. Annar kennarinn í þeirri deild taldi að ef taka ætti ákvörðun um sameiningu nú yrði niðurstaðan önnur.

Um félagsvísindi er oft sagt að þau liggi mitt á milli hugvísinda og raunvísinda hvað varðar heimildanotkun. Enda voru skoðanir kennara þar um sameininguna hvorki jákvæðar né neikvæðar. Annar kennarinn treysti sér ekki til að taka afstöðu, hafði ekki „pælt mikið í þessu“ og hinn sá í sjálfu sér enga ókosti við sameininguna en taldi margþætt hlutverk óheppilegt.

Lagadeildin hefur öflugt útibú í Lögbergi sem kennararnir tveir notuðu meira en safnið í Þjóðarbókhlöðu. Sameiningin hafði því ekki skipt sköpum fyrir þá en öðrum þeirra fannst þó hlutverkið óljósara og að þjóðbókasafns- hlutverkið hefði haft yfirhöndina. Hinum fannst sameiningin jákvæð og að hún hefði styrkt safnið.

Kennarar viðskipta- og hagfræðideildar töldu sig heldur ekki hafa mikla þörf fyrir bókasafnið í Þjóðarbókhlöðu. Annar kennari þessarar deildar sagðist nær eingöngu nota rafræn gögn en hinn kennarinn notaði bæði prentuð gögn og rafræn. Þeir voru samt sem áður á öndverðum meiði um sameininguna því annar taldi hana af hinu góða en hinn að betra hefði verið að hún hefði aldrei átt sér stað. Báðir voru þó sammála um að safnið væri mun betra safn en áður.

Í töflu eitt má sjá viðhorf þátttakenda til sameiningar safnsins og yfirlit yfir safnnotkun þeirra. Fjórir kennarar hafa notað safnið mikið, þrír lítið og tveir ekkert. Einn notaði eingöngu útibúið í Lögbergi. Þó eru mörkin óljós á milli lítillar og mikillar notkunar og fer eftir þeim mælikvörðum sem notaðir eru. Einn helsti mælikvarði á notkun bókasafns eru útlán bóka og höfðu átta kennarar tekið bækur í lán síðastliðna tólf mánuði. Hinir tveir báru við miklum stjórnsýslustörfum og notkun rafrænna gagna. Þeir voru báðir

32 Bókasafns- og upplýsingafræði Áslaug Agnarsdóttir

ánægðir með rafræna aðganginn eins og reyndar sex kennarar alls. Kennurum sem þekktu gamla Háskólabókasafnið fannst nýja safnið betra enda er það mun stærra og betur búið, með auknum ritakosti og fleiri starfsmönnum. Að mati þriggja kennara er það þó ekki endilega sameiningunni sem slíkri að þakka heldur öllu frekar nýja húsnæðinu, tækjakostinum og ritakaupaátaki í tengslum við opnunina. Sú skoðun kom fram hjá einum kennara að stjórnsýsla Háskólans virtist áhugaminni um safnið en áður og það hefði neikvæð áhrif á fjárveitingar til safnins. Þegar afstaða kennaranna er skoðuð í heild sinni er áberandi hve viðhorf deildanna voru ólík, og einnig viðhorf einstaklinganna, en jafnframt var afstaða þeirra í megindráttum afar rökrétt og skiljanleg ef tekið er tillit til rannsóknarhefða innan deildanna.

Tafla 1. Sameining safnanna og safnnotkun

Deild Sameining til góðs Safnnotkun

1 Viðsk/hagfr. Já Engin

2 Viðsk/hagfr. Nei Lítil

3 Lagad. Já Lítil

4 Lagad. Hlutlaus Útibú

5 Hugvísindad. Já Mikil

6 Hugvísindad. Já Mikil

7 Félagsvís. Já/nei* Mikil 8 Félagsvís. Hlutlaus Mikil

9 Raunvísindad. Nei Engin

10 Raunvísindad. Nei Lítil

*Þessi kennari sá bæði kosti og galla við sameininguna