• No results found

Spurningalistakannanir og smættun

Vandinn sem um ræðir kallast smættun (reductionism). Smættun er alþekkt vandamál í vísindum og reyndar má finna skýringu á þessu hugtaki í flestum betri inngangsritum í aðferðafræði félagsvísinda (t.d. Neuman, 2003, sjá ítarlegri umfjöllun í O’Brien, 1992). Í því tilviki sem hér um ræðir vísar smættun til þess þegar rannsakandi styðst við samanburð míkróeininga (t.d. samanburð á einstaklingum) í þeim tilgangi að álykta um makróferli, það er ferli sem eiga sér stað á stigi stærri félagslegra heilda, eða hópa (aggregate level of analysis). Í reynd segir samanburður míkróeininga okkur þó oft lítið sem ekkert um makróferli (Lieberson, 1985).

Spurningalistakannanir og smættun félagslegra fyrirbæra 141

Tökum dæmi af rannsókn Messners og Sampsons (1985) til þess að útskýra þetta betur, en rannsókn þeirra var beinlínis ætlað að útlista þetta málefni. Messner og Sampson benda á að karlmenn eru líklegri til þess að fremja ofbeldisbrot en konur, sérstaklega morð. Þetta sýna fjölmargar rannsóknir sem borið hafa saman ofbeldisbrot karla og kvenna (einstaklinga). Nú mætti freistast til þess að líta svo á að þetta (míkró) samband milli kynferðis og ofbeldisbrota segi okkur eitthvað um tíðni ofbeldisbrota í þjóðfélaginu. Þannig virðist rökrétt að gera ráð fyrir því að ofbeldisbrotum hljóti að fækka eftir því sem karlar eru minni hluti af heildarmannfjölda. Ef karlar fremja fleiri ofbeldisbrot en konur hlýtur slíkum brotum að fækka eftir því sem karlmönnum fækkar hlutfallslega. Svo er reyndar alls ekki. Messner og Sampson báru saman morðtíðni í bandarískum borgum og komust að athyglisverðri niðurstöðu: Eftir því sem karlar eru minni hluti af heildar- mannfjölda borga, þeim mun hærri er morðtíðnin. Ekki er unnt að skýra þessa niðurstöðu af samanburði borga með vísan í kynbundin einkenni (míkró), heldur hlýtur hún að skýrast af því hvaða áhrif kynjahlutfall hefur á félagsgerð borgarsamfélagsins (makró). Messner og Sampson skýrðu niðurstöður sínar þannig að minnkandi hlutfall karla yki á hlutfallslegan fjölda einstæðra mæðra, sem aftur drægi úr félagslegu taumhaldi á ungmennum í borgarsamfélaginu.

Draga má þann lærdóm af rannsókn Messners og Sampsons að míkrósamanburður (t.d. samanburður á brotum karla og kvenna) segir okkur oft ekkert um áhrif makró þátta. Yfirleitt er þörf á makrósamanburði (samanburði á félagslegum heildum, t.d. borgum) ef markmiðið er að læra eitthvað um tilvist og áhrif makróþátta. Þá þarf rannsakandinn að afla gagna um einkenni á félagslegum heildum en ekki einkenni á einstaklingum. Það er nefnilega einmitt þannig, eins og Durkheim ([1895] 1982) benti á fyrir löngu síðan, að félagslegar staðreyndir (einkenni á félagslegum heildum, t.d. morðtíðni) er oft aðeins unnt að skýra með vísan í aðrar félagslegar staðreyndir (einkenni á félagslegum heildum, t.d. samsetningu mannfjöldans í borgarsamfélaginu).

En hvernig skapa spurningalistakannanir hættu á smættun? Í hefð- bundinni spurningalistakönnun er samanburðareiningin (unit of analysis) yfirleitt einstaklingurinn, það er viðhorf hans og persónuleg reynsla. Hefðbundnar spurningalistakannanir gefa þannig aðeins möguleika á míkró- samanburði, sem beinir fyrst og fremst sjónum okkar að því hvernig persónulegar aðstæður og nánasta umhverfi fólks mótar hegðun, hugsun og lífsgæði þess. Þetta er auðvitað helsti styrkur spurningalistakannanna. En eins og rannsókn Messners og Sampsons sýnir er alls óvíst að míkrósamanburður

142 Félagsfræði Jón Gunnar Bernburg og Þórólfur Þórlindsson

af þessu tagi segir okkur eitthvað um makróferli, reyndar er líklegt að svoleiðis samanburður segi okkur nákvæmlega ekkert um makróferli (Lieberson, 1985). Til þess að læra eitthvað um makróferli þarf að framkvæma makrósamanburð, það er samanburð á félagslegum heildum (t.d. borgum, þjóðríkjum). Af þessum sökum er ljóst að þegar rannsakendur einblína einvörðungu á míkrósamanburð sem fengin er úr spurningalista- könnun er óumflýjanlegt að þeir horfi framhjá því hvaða áhrif félagsgerðin hefur á líf fólks.

Þetta vandamál má útlista á einkar skýran hátt með niðurstöðum úr nýlegri rannsókn okkar á afbrotahegðun unglinga (Jón Gunnar Bernburg og Þórólfur Þórlindsson, 2006). Rannsóknin var byggð á spurningalistakönnun sem lögð var fyrir um 90 prósent allra nemenda sem sátu 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi árið 1997. Auk ýmissa spurninga um félagslegan bakgrunn voru unglingarnir spurðir um afbrotahegðun þeirra síðastliðna 12 mánuði fyrir könnunina. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að skoða félagslega áhættuþætti unglingaafbrota. Hluti niðurstaðna er birtur í töflu 1. Í fyrri dálknum í töflunni má sjá fylgni nokkurra félagslegra þátta við afbrotahegðun (fylgni á einstaklingsstigi). Athygli vekur að fram kemur veik fylgni á milli afbrotahegðunar og þeirra félagslegu þátta sem teknir eru fyrir í töflunni. Þannig er fylgni á milli búferlaflutninga og afbrotahegðunar afar veik; unglingar sem hafa flutt hafa í nýtt hverfi eða sveitarfélag á undanförnum 12 mánuðum sýna aðeins ívið meiri afbrotahegðun en þeir sem ekki hafa flutt (r = 0,08). Að sama skapi er veik fylgni á milli afbrotahegðunar og þess að búa ekki hjá báðum foreldrum (-0,12) og þess að eiga atvinnulausa foreldra (r = 0,11). Þessar niðurstöður, sem byggja á míkrósamanburði (þ.e. samanburði á afbrotahegðun einstaklinga), benda til þess að þessir þættir hafi að jafnaði fremur veik tengsl við afbrotahegðun unglinga.

Tafla 1. Pearson-fylgni (p < 0,05) nokkurra mælinga við afbrotahegðun unglinga

Fylgni á einstaklingsstigi Fylgni á stigi skólahverfisins

(N = 6748) (N = 68)

Búferlaflutningar 0,08 0,46

Fjölskyldustöðugleiki -0,12 -0,48

Atvinnuleysi foreldra 0,11 0,41

Spurningalistakannanir og smættun félagslegra fyrirbæra 143

Nú væri freistandi að álykta sem svo að téðir félagslegir þættir hafi jafnframt veik tengsl við umfang unglingaafbrota. En sú ályktun væri að sjálfsögðu ekkert annað en ólögmæt smættun. Eins og áður er sagt er engin trygging fyrir því að niðurstöður úr míkrósamanburði segi okkur eitthvað um makróferli. Þar sem við vorum meðvitaðir um þetta málefni ákváðum við að „stækka“ grundvallareiningu samanburðarins með því að leggja saman svör unglinga eftir skólahverfum. Með öðrum orðum, í stað þess að bera einvörðungu saman einstaklinga ákváðum við að framkvæma jafnframt samanburð á umfangi afbrota milli skólahverfa. Þar sem spurningalista- könnunin náði til um 90 prósent allra unglinga á fyrrgreindum skólastigum reyndist auðvelt að reikna út meðalafbrotahegðun unglinga í hverju skóla- hverfi. Að sama skapi mátti nota svör þátttakenda til þess að finna hlutfallslegan fjölda unglinga í hverju skólahverfi sem hefur flutt í nýtt hverfi eða sveitarfélag, hlutfallslegan fjölda unglinga sem ekki býr hjá báðum foreldrum og hlutfallslegan fjölda unglinga í skólahverfinu sem eiga atvinnulausa foreldra.

Þegar fylgni hinna þriggja þátta (sem nú eru einkenni á skólahverfum en ekki einstaklingum) við umfang afbrotahegðunar í skólahverfunum var reiknuð komu athyglisverðar niðurstöður í ljós (sjá seinni dálk í töflu 1). Allir þættirnir þrír höfðu nú umtalsverða fylgni við umfang afbrota. Þannig kom í ljós að í skólahverfum þar sem búferlaflutningar voru algengir var umfang afbrota umtalsvert meira en í skólahverfum þar sem búferlaflutningar voru fátíðari (r = 0,46). Að sama skapi var umfang afbrota meira í skólahverfum þar sem hlutfallslega færri unglingar bjuggu hjá báðum foreldrum (-0,48) og þar sem atvinnuleysi meðal foreldra var algengara (r = 0,41). Þessar niður- stöður, sem nú byggja á makrósamanburði (þ.e. samanburði á umfangi afbrota milli skólahverfa), benda til þess að þessir þættir skipti reyndar miklu máli fyrir afbrotahegðun unglinga.1

Hvernig má útskýra þessara ólíku niðurstöður? Af hverju er fylgnin milli hinna þriggja félagslegu þátta og afbrota svona miklu sterkari á makróstiginu? Ástæðan er líklega sú að félagsgerð skólahverfa hefur útbreidd áhrif á lífshætti unglinga sem í hverfunum búa. Þessi útbreiddu áhrif sem félagsgerð hverfisins hefur er ekki hægt að smætta í einstaklingsbundnar heimilis-

1 Athygli er vakin á því að hér er um einfjöldun að ræða. Fylgnistuðlar í dálki 1 og dálki 2 eru ekki fullkomlega samanburðarhæfir enda hafa mælingarnar augljóslega ólíkan breytileika eftir því hvort samanburðareiningin er einstaklingur eða skólahverfi. Tæknilega fullnægjandi samanburð er að finna í grein okkar (Jón Gunnar Bernburg og Þórólfur Þórlindsson, 2006) en þar notum við línulega stigveldisgreiningu (hierarchical linear regression) til þess að skoða þetta.

144 Félagsfræði Jón Gunnar Bernburg og Þórólfur Þórlindsson

aðstæður unglinga. Tökum búferlaflutninga sem dæmi. Í hverfum þar sem búferlaflutningar eru tíðir myndast ákveðið upplausnarástand: nágrannar þekkjast síður og foreldrar þekkja síður aðra foreldra í hverfinu. Svona ástand er talið draga úr eftirliti og aðhaldi með unglingum í hverfinu (Sampson og Groves, 1989). Samkvæmt þessari (makró) kenningu skiptir það í raun litlu máli hvort unglingurinn hafi sjálfur flutt milli skólahverfa (sem útskýrir hið veika míkrósamband) heldur hitt að hann eða hún tilheyri skólahverfi þar sem búferlaflutningar eru fátíðir eða algengir (sem útskýrir hið sterka makrósamband). Síðarnefndu áhrifin sjást ekki í samanburði einstaklinga heldur aðeins í samanburði skólahverfa. Ef við hefðum haldið okkur við míkrósamanburðinn hefðum við aldrei séð hve mikil áhrif búferlaflutningar í raun og veru hafa á afbrotahegðun. Við hefðum þannig horft framhjá þessum makró-áhrifaþætti afbrotahegðunar.