• No results found

Persónubundnir þættir tengdir íþróttaiðkun og líkamlegri hreyfingu

Þátttaka einstaklinga í íþróttum og líkamsþjálfun, sem og ýmsum öðrum athöfnum, byggir á áhugahvetjandi þáttum. Ólíklegt er að einstaklingar haldi áfram íþróttaiðkun eða líkamlegri hreyfingu án umtalsverðrar áhugahvatar (motivation). Sálfræðingarninr Deci og Ryan (1985, 1991; Ryan og Deci, 2000) greina meðal annars milli innri og ytri hvatningar til athafna (internal and external motivation). Innri hvatning til íþróttaiðkunar á sér stað þegar einstaklingar taka þátt vegna þeirrar ánægju sem þeir hafa af sjálfri iðkuninni. Ytri hvatning vísar til þess að einstaklingar stundi íþróttir vegna ávinnings sem liggur utan iðkunarinnar sjálfrar, svo sem til að öðlast athygli eða viðurkenningu, vegna fjárhagslegrar umbunar, eða til að grennast. Iðkunin verður þar með leið að öðrum markmiðum, en hefur ekki tilgang í sjálfu sér.

164 Félagsfræði Rúnar Vilhjálmsson

Þetta felur jafnframt í sér að þegar hið ytra umhverfi iðkandans breytist kann iðkunin að minnka eða leggjast niður. Til að viðhalda iþróttaiðkun og líkamsrækt yfir lengri tíma hafa fræðimenn því lagt megin áherslu á þau ferli sem styrkja innri hvatningu einstaklingsins til að hreyfa sig.

Samkvæmt hugmyndum Deci og Ryan og fleiri sálfræðinga um áhuga- hvötina er innri hvatning til athafnar líklegust þegar athöfnin mætir þörfum fyrir sjálfræði (autonomy), getu (competence) og nánd (relatedness). Sjálfræði vísar til þess að einstaklingurinn telji sig hafa frumkvæði og stjórn á athöfninni. Geta vísar til þess að einstaklingurinn telji sig hafa nauðsynlega kunnáttu og hæfni til að ná árangri. Nánd vísar til þess að einstaklingurinn telji sig geta öðlast og viðhaldið jákvæðum tengslum við aðra gegnum athöfnina. Samkvæmt þessari greiningu er hægt að stuðla að líkamlegri hreyfingu einstaklinga til langframa gegnum íþróttastarfið með því að efla sjálfræði, getu og nánd iðkenda og ýta þannig undir innri hvatningu til hreyfingar. Lítum first á sjálfræðið. Hér er vandi íþróttastarfs meðal ungs fólks sá, að þjálfarar, foreldrar og stjórnendur stýra að að lang mestu leyti íþróttastarfseminni. Því finnst ungum þátttakendum oft að þeir hafi lítið sjálfræði, sem á endanum getur bitnað á þátttöku þeirra. Rannsóknar- niðurstöður Coakley og White (1992) benda til að unglingar velti fyrir sér sjálfræði sínu í íþróttastarfinu þegar þeir taka ákvarðinir um að halda áfram eða hætta. Þá má nefna að Pelletier og félagar gerðu framskyggna rannsókn meðal keppnismanna í sundi sem leiddi í ljós að þeir sundmenn sem töldu þjálfara sinn styðja sjálfræði sitt í lífinu og íþróttinni sýndu meiri innri hvatningu til sundiðkunar, og voru ólíklegri en aðrir til að hætta sundiðkun á 22 mánaða tímabili (Pelletier, Fortier, Vallerand og Briere, 2001).

Mat á eigin getu skiptir einnig máli fyrir áhuga á iðkun íþrótta samkvæmt kenningum um áhugahvötina (Bandura, 1986; Nicholls, 1984). Rannsókn Gould og félaga á sundmönnum á unglingsaldri leiddi í ljós að þeir sem hættu sundiðkun gáfu oft upp þá ástæðu að þeir væru „ekki nógu góðir” (Gould, Feltz, Horn og Weiss, 1982). Í rannsókn Wang of Biddle (2001) meðal unglinga voru skýr tengsl milli mats á eigin getu og hreyfingar. Þá má nefna að unglingar í rannsókn Coakley og White (1992) töldu að þeir yrðu að sýna fram á getu ef þeir ættu að geta haldið áfram í íþróttum.

Kenning Nicholls (1984) um árangursmarkmið (achievement goal theory) greinir nánar í sundur mat einstaklinga á eigin getu. Samkvæmt henni geta einstaklingaar aðhyllst sjálfbundið mat á getu (mastery orientation) þar sem matið miðast við aukið vald eða tök á athöfnum og eigin framfarir við framkvæmd athafna, eða félagsbundið mat á getu (social comparison orientation) þar sem eigin geta er metin í samanburði við aðra. Þeir sem

Skipulagt íþróttastarf meðal ungs fólks: Áhrifaþættir og afleiðingar 165

temja sér sjálfbundið mat geta verið ánægðir með eigin getu meðan þeir leggja sig fram og ná góðum eða auknum árangri miðað við sjálfa sig. Hins vegar er hætta á að einstaklingar sem temja sér félagsbundið mat telji getu sína lakari með aldrinum vegna þess að þeir bera sig saman við aðra í umhverfi keppnisíþrótta þar sem stöðugt er krafist meiri árangurs af iðkendum. Aukinn félagsþroski gerir einstaklingnum að sönnu fært að bera sig saman við aðra og að sjá sjálfan sig útfrá sjónarhóli annarra. Aukinn þroski getur því haft þær afleiðingar að einstaklingar sjái getu sína miðað við aðra í raunhæfara en um leið neikvæðara ljósi með aldrinum. Þar eð skipulagt íþróttastarf byggir gjarnan á getubundnu stigveldi þar sem getuminni íþróttamenn missa af æfinga- og keppnistækifærum, þá er ekki að undra að einstaklingar sem hafa félagsbundið mat á getu sinni telji getuna litla eða ófullnægjandi, enda viðmiðunin æ brattari eftir því sem líður á íþrótta- iðkunina. Það sem gerir þennan samanburðarvanda enn meiri er sú staðreynd að einstaklingar taka út líkamsþroska með misjöfnum hætti og þeir sem eru seinþroska gætu tekið ótímabæra ákvörðun um að hætta íþróttaiðkun vegna neikvæðs samanburðar við þroskaðri einstaklinga á sama aldri. Mikilvægir mótunaraðilar í lífi ungmenna, einkum þjálfarar, gegna lykilhlutverki við að móta markmið og viðmiðanir í íþróttastarfinu. Þjálfari sem leggur áherslu á félagsbundið mat á getu kann að móta sömu áherslu hjá íþróttamönnunum. Leggi þjálfarinn hins vegar áherslu á sjálfbundið mat kann það að beina sjónum íþróttamannanna að eigin framförum við mat á getu sinni. Slíkt getumat er heppilegt að því leyti að það er undir stjórn íþróttamannsins fremur en félagsbundna matið.

Sú félagslega nánd sem fylgt getur íþróttaiðkuninni er þriðji þátturinn sem stuðlar að innri hvatningu iðkandans samkvæmt kenningum um áhuga- hvötina. Viðhald jákvæðra tengsla við aðra virðist vera mikilvæg ástæða þess að ungmenni hefja íþróttaiðkun og halda áfram í íþróttum (Weiss og Petlichkoff, 1992). Nokkrar rannsóknir benda til að tengslaþátturinn sé mikilvægur fyrir iðkendur á öllum aldri (Brodkin og Weiss, 1990). Í rannsókn Ullrich-French og Smith (2006) meðal 10-14 ára knattspyrnuiðkenda kom í ljós að innri hvatning til fótboltaiðkunar tengdist viðurkenningu frá jafningjum í fótboltanum og gæðum vina- og foreldratengsla með tilliti til fótboltans. Þannig virðist félagsleg nálægð við jafningja, vini og foreldra gegnum íþróttirnar geta aukið innri hvatningu til frekari iðkunar.

Þá er ótalinn einn þáttur í íþróttastarfinu sem miklar umræður hafa verið um á síðari árum, en það er sérhæfing ungra íþróttamanna. Vaxandi áhersla á íþróttaárangur og afreksíþróttir hefur ýtt undir sérhæfingu íþróttamanna á ungum aldri. Í sumum greinum, s.s. fimleikum, hefst þessi sérhæfing þegar

166 Félagsfræði Rúnar Vilhjálmsson

börnin eru á forskólaaldri (Wieting og Civettini, 2006). Þótt í ýmsum tilvikum megi ná fram auknum árangri íþróttamanna með markvissum æfingum og keppni innan einnar keppnisgreinar frá unga aldri er slík sérhæfing umdeild. Komið hafa fram þau sjónarmið og rannsóknaniðurstöður að fjölþætt íþróttareynsla á ungum aldri sé hagstæðari til árangurs í mörgum íþrótta- greinum (Baker, 2003). Þá má nefna að erfitt getur reynst fyrir hinn unga íþróttamann að höndla það líkamlega og sálræna álag sem fylgir íþrótta- iðkuninni (American Academy of Pediatrics, 2000a; Coakley, 1992; Scanlan og Passer, 1978, 1979). Leiði vegna ósveigjanlegra síendurtekinna æfinga getur á endanum gert unga íþróttamanninn afhuga íþróttum (Baker, 2003). Þá getur sérhæfing á ungum aldri valdið einhæfri hreyfiþjálfun og takmarkað möguleika á vali annarra íþróttagreina síðar (Wiersma, 2000). Hinn ungi íþróttamaður gengur einnig í gegnum örar þroskabreytingar og ekki víst að íþróttagrein sem hann nær góðum árangri í á einum tíma hæfi honum á öðrum tíma. Þeir erfiðleikar sem íþróttamaðurinn kann að upplifa með tímanum í sinni „einu og sönnu íþróttagrein“ geta hrakið hann út úr greininni og út úr íþróttunum (sjá Scanlan og Passer, 1978, 1979; Coakley, 1992). Af þessum ástæðum hafa ýmsir fræðimenn sett fram markmiðið um „fjölbreytta iðkun á ungum aldri“ gegn markmiðinu um „sérhæfingu á ungum aldri“. Rétt er að taka fram að enn er margt óljóst um kosti og galla sérhæfingar á ungum aldri og frekari rannsókna er þörf á þessu sviði, meðal annars með tilliti til ólíkra krafna í einstökum íþróttagreinum. Þó má segja að nýlegar rannsóknaniðurstöður um neikvæðar hliðar sérhæfingar meðal ungra íþróttamanna styðji að ýmsu leyti sjónarmið talsmanna fjölbreyttrar iðkunar á ungum aldri (American Academy of Pediatrics, 2000a).