• No results found

Fram hefur komið að undanförnu að tekjur Íslendinga hafa orðið mun ójafnari á síðustu tíu árum en áður var. Þessa þróun má sjá á mynd 1. Ójöfnuðurinn er mældur með svokölluðum Gini ójafnaðarstuðli. Því hærri sem stuðullinn er þeim mun ójafnari er tekjuskiptingin. Árið 1993 var Gini ójafnaðarstuðullinn 0,21 fyrir hjón og sambúðarfólk en hafði hækkað í 0,36 árið 2005, samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Stuðullinn fyrir einhleypa var 0,34 og hafði hækkað á sama tíma í 0,40. Tiltölulega lítil hækkun Gini ójafnaðarstuðulsins endurspeglar talsverða aukningu ójafnaðar. Í þessum tölum á myndinni er miðað við ráðstöfunartekjum fjölskyldna, þ.e. allar tekjur ásamt barna- og vaxtabótum, að frádregnum beinum sköttum (tekju- og eignasköttum öllum), en það er venjulega gert þegar ójöfnuður í tekjuskiptingu er mældur.

Meiri ójöfnuður hefur verið meðal einhleypra en hjóna og sambúðarfólks, eins og sjá má á myndinni. Þar gætir m.a. þess að í hópi einhleypra er að stórum hluta ungt skólafólk er býr í foreldrahúsum og sem einungis hefur tekjur af hlutastörfum. Einnig eru þar allmargar aldraðar ekkjur sem oft hafa lágar tekjur. Það er því eðlilega meiri breidd í tekjum einhleypra en samskattaðra. Hraðinn í aukningu ójafnaðarins er hins vegar meiri hjá hjónum og sambúðarfólki og vekur það óneitanlega athygli. Aukningin þar er afar mikil ef miðað er við algenga þróun tekjuskiptingar á Vesturlöndum á síðustu áratugum (Atkinson, Rainwater og Smeeding, 1995; Atkinson, 2002; Förster og d´Ercole, 2005; Stefán Ólafsson og Kolbeinn Stefánsson, 2005, kafli 9).

174 Félagsfræði Stefán Ólafsson 0, 34 0, 34 0,34 0, 34 0,35 0,34 0,35 0, 36 0,37 0, 39 0, 39 0,40 0, 21 0,21 0,22 0, 23 0,24 0, 25 0,26 0, 28 0,28 0, 30 0,31 0, 36 0, 35 0, 21 0,00 0,05 0,10 0,15 0,20 0,25 0,30 0,35 0,40 0,45 1993 1994 1995 1996 1997 1998 1999 2000 2001 2002 2003 2004 2005 Gi ni -s tu ðl ar 3. Einhleypir 4. Samskattaðir

Mynd 1. Ójöfnuður í dreifingu tekna á Íslandi 1993 til 2005: Gini-ójafnaðar- stuðlar. Einhleypir og samskattaðir.

Ýmis önnur íslensk gögn sem fram hafa komið á síðustu árum hafa bent til sömu áttar. Dæmi um það er skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands,

Tekjuskipting á Íslandi (Ásgeir Jónsson o.fl., 2001). Hún sýndi að tekju-

skiptingin hafði verið að jafnast rólega til 1994 en tók að verða ójafnari, ár frá ári, eftir þann tíma. Gögn frá fjármálaráðuneytinu sem lögð voru fram á Alþingi sýndu sömu langtímaþróun heildartekna fjölskyldna frá 1994, bæði með og án fjármagnstekna. Þá höfðu árleg gögn frá Hagstofu Íslands bent ótvírætt til sömu áttar (Landshagsskýrslur, ýmis ár), auk niðurstaðna rannsókna á íslenska velferðarríkinu (Stefán Ólafsson, 1999; Karl Sigurðsson og Stefán Ólafsson, 2000). Eldri gögn frá Þjóðhagsstofnun höfðu almennt sýnt frekar litlar breytingar á tekjuskiptingunni frá 1980 til 1995 (sjá Tekjur, eignir og dreifing þeirra, 1993 til 2000 og Ásgeir Jónsson o.fl., 2001, bls. 54).

Ofangreind aukning á ójöfnuði tekna á Íslandi er athyglisverð og kallar á frekari greiningu þess sem að baki býr. Í þessari grein verður sérstaklega reynt að varpa ljósi á þróun fjölskyldutekna hjóna- og sambúðarfólks á tímabilinu 1996 til 2004 og sýnt hvernig þeir ólíku þættir tekna sem mynda heildartekjur og ráðstöfunartekjur fjölskyldna hafa þróast á tímabilinu hjá fólki í ólíkum tekjuhópum. Þannig má greina hvaða þættir hafa tengst auknum ójöfnuði og hverjir hafa gengið til meiri jafnaðar. Með þeirri aðferð sem hér er beitt má sjá með nokkuð skýrum hætti hvernig tekjuskiptingin hefur breyst, þ.e. hvaða öfl eru að baki og hvernig þau hafa virkað á ólíkum

Breytt tekjuskipting Íslendinga 175

stigum tekjuskiptingarinnar. Þetta er mikilvægt að greina svo réttar ályktanir verði dregnar af heildarþróuninni sem sýnd er á mynd 1.

Við skoðum hér fyrst þróun atvinnutekna launafólks, síðan lífeyristekjur frá almannatryggingum og frá lífeyrissjóðum, þá barna- og vaxtabætur og loks heildartekjur fjölskyldna (þ.e. allar tekjur samanlagðar: atvinnutekjur, lífeyristekjur, fjármagnstekjur o.fl.). Að því loknu verður sýnt hvernig skattgreiðslur hafa þróast hjá ólíkum tekjuhópum og að endingu skoðum við þróun ráðstöfunartekna, en þær skipta fjölskyldurnar auðvitað mestu máli og endurspegla niðurstöður flestra þeirra þátta sem orka á afkomu fólks.

Tímabilið 1996 til 2004 er valið vegna þess að samræmd úrvinnsla Hagstofu Íslands úr skattframtölum, sem byggt er á, liggur aðeins fyrir í

birtum gögnum fyrir þetta tímabil.1 Að vissu leyti hefði verið æskilegra að

miða við 1994 sem byrjunarár, þar eð þá varð umsnúningurinn í þróun tekjuskiptingarinnar, eins og að ofan greindi, og þá hófst einnig almenn uppsveifla í efnahagslífinu og ný ríkisstjórn tók við völdum á árinu 1995. Hér verður þó miðað við tímabilið frá 1996 til að fá meira samræmi í greiningu gagna um ólíka þætti tekjuskiptingarinnar, enda breytir þetta upphafsár litlu varðandi heildarmynstur niðurstaðna í samanburði við það að byrja 1994. Það hefur verið sannreynt fyrir þá þætti sem bera má saman fyrir allt tímabilið 1994 til 2004.

Greiningin er í öllum tilvikum sett fram á þann hátt að sýnt er hvernig þróun ofangreindra þátta hefur verið hjá tíu jafn stórum tekjuhópum hjóna og sambúðarfólksins í landinu. Það er gert með því að skipta öllum fjölskyldum upp í tekjuhópa, frá tekjulægstu 10% fjölskyldna til tekjuhæstu 10% fjölskyldnanna. Þannig má sjá hvernig þróun einstakra þátta hefur snert lágtekjufólk, meðaltekjufólk og hátekjufólk oft með ólíkum hætti. Með þessari aðferð má með skýrum hætti sjá hvernig ólíkir þættir leggja misjafnlega til jöfnunar- eða ójöfnunaráhrifa á endanlega tekjuskiptinguna, ráðstöfunartekjurnar sem skipta almenning mestu máli, því það er niðurstaðan sem ræður lífskjörum fjölskyldna í landinu.

1 Gögnin eru birt í Landshagsskýrslum Hagstofu Íslands frá 1997 til 2005. Áður og allt til ársins 2000 birti Þjóðhagsstofnun úrvinnslu úr skattframtölum sem sýndi þróun nokkurra ólíkra þátta tekjuskiptingarinna (sjá útgáfur Þjóðhagsstofnunar „Tekjur, eignir og dreifing þeirra“ fyrir árin 1993 til 2001). Í megindráttur eru hér bornar saman niðurstöður Hagstofunnar fyrir þessi tvö ár, 1996 og 2004, og reiknaður vöxtur viðkomandi liða í %, miðað við verðlag hvors árs (þ.e. ekki er leiðrétt fyrir verðbólgu, enda ekki þörf á því fyrir þess konar greiningu þar sem samanburður milli tveggja tímapunkta er gerður eins í öllum tilvikum. Þannig má skoða stærð breytinga einstakra liða með beinum samanburði þáttanna innbyrðis.).

176 Félagsfræði Stefán Ólafsson